Thursday, December 20, 2012

Bók um bók of fleira - Útgáfuhóf 21.des

Föstudaginn 21. des kl. 19-21 mun Útúrdúr bókverkabúð halda upp á endurútgáfu Bók um bók og fleira sem Útúrdúr sjálf stendur að. Bókin kom fyrst út árið 1980 og er afrakstur samtals Magnúsar Pálssonar og nemenda hans í nýlistardeild í Mynd- og Handíðarskólanum á sínum tíma. Umræðuefnið var bókin sjálf og eiginleikarnir hennar. Um er að ræða einu bókina sem hefur komið út á Íslandi sem fjallar um sjálfa sig. Í bókinni má meðal annars sjá hvernig nemendurnir reyndu að skapa sér ramma í samtali sínu með að setja fram krossapróf í von um að niðurstöður þess myndu skýra fyrir þeim þetta hvað fyrirbærið bók er. Niðurstöður krossaprófsins fullyrðir að bók er aðeins 80% bók en kú 100%. Að lokum teygir samræðan anga sína í kringum þetta tiltekna viðfangsefni og nemendurnir taka fram að hún hafi útlistað lífskoðanir þeirra, heimspeki, pólitík, trúarskoðanir og yfirleitt allt það sem þeim varðar á þeim tíma sem bókin var sköpuð. Um er því að ræða allverulega bók, jafnvel stórhættulega í þeim skilningi því hún tekst á við sjálfa sig, samræðuna og hugmyndafræði höfundanna. Í tilefni útgáfunnar verður til sýnis í Útúrdúr verk Kristjáns Steingríms Jónssonar „Há fræðilegur orðaleikur um hugmyndafræðileg tengsl rörs og bókar í sambandi við frumlega sköpunargáfu“ sem unnið var í tengslum við vinnuferli bókarinnar, sem og að bókin fæst á sérstöku tilboði í tilefni útgáfunnar.